Einfalt graf úr gagnaskrá

Byrjum á því að sækja þessa þægilegu gagnaskrá til að teikna upp. Vistaðu hana einhverstaðar þar sem þú ætlar að vinna og færðu þig þangað með cd.

Gnuplot ræsum við í skipanaglugga (e. terminal emulator) með skipuninni

gnuplot
Graf gert með Gnuplot
Mynd 1: Gögn teiknuð hrátt.

Nú erum við komin í gagnvirkan ham Gnuplot og getum farið að keyra skipanir. Til að teikna graf af gögnunum í skránni "linulegt.dat" slærðu inn:

plot 'linulegt.dat'

Við þetta á að koma upp graf líkt fyrstu myndinn hér til hliðar. Við getum hins vegar skilgreint ýmislegt til að breyta ásýnd grafsins. Við getum t.a.m. tilgreint úr hvaða dálki lárétta (x) og lóðréttu (y) gildi hnitanna eiga að koma. Byltu grafinu með því að keyra:

plot 'linulegt.dat' using 2:1

Gagnaskráin inniheldur þrjá dálka: tíma, stöðu og óvissu á stöðugildunum. Til að teikna upp graf af stöðu sem fall af tíma með óvissurömmum fyrir stöðugildin skrifum við:

plot 'linulegt.dat' using 1:2:3 with yerrorbars
Graf gert með Gnuplot
Mynd 2: Óvissur komnar á grafið.

Þarna þurfum að tilgreina þrjá dálka með "using" fyrir "yerrorbars" formið. Við getum hins vegar líka tilgreint gerð og stærð punktsins með því að skrifa:

plot 'linulegt.dat' using 1:2:3 with yerrorbars pointtype 7 pointsize 0.4

Titlar grafs og ása

Nú getum við farið að undirbúa grafið fyrir birtingu. Við þurfum að merkja ásana og svo kanna að vera að við viljum bæta titli.

Graf gert með Gnuplot
Mynd 3: Titill kominn og ásar merktir.
set title "Titill"
set xlabel "tími (s)"
set ylabel "staða (m)"

Uppfærum nú grafið svo það noti þessar stillingar:

replot

Skilgreinum ákveðinn textafont fyrir grafið. Byrjum á því að kanna hvaða "terminal" Gnuplot er að nota:

show terminal

Útkoman verður eitthvað í líkingu við:

terminal type is qt 0 font "Sans,9"

Breytum þessu í 12 punkta Verdana með:

set terminal qt 0 font "verdana,12"

Munið að það þarf að endurteikna grafið svo breytingarnar sjáist.

Eins má skilgreina texta á ákveðinn ás:

set xlabel "tími (s)" font "Helvetica-Bold,16"

Til að uppfæra grafið getum við ýtt örvahnappnum upp til að fletta í gegnum síðustu skipanir, eða bara slegið inn:

replot

Ásar skalaðir og hakaðir

Viljum við að annar ásinn nái yfir ákveðið bil getum við skilgreint það þegar við teiknum grafið:

plot [:60][:80] 'linulegt.dat' using 1:2:3 with yerrorbars pointtype 7 pointsize 0.4

Þarna erum við að skorða efri mörk lárétta ássins við 60 og þess lóðrétta við 80.

Til að haka ásana setjum við stillistærðirnar xtics og ytics sem segja hversu langt á að vera á milli haka með númerum, og mxtics og mytics sem segja hversu mörg bil með minni hökum eiga að vera á milli númeruðu hakanna.

Prufið að setja hök á lárétta ásinn með 30 eininga bili og 10 smærri bil inn á milli:

set xtics 30
set mxtics 10

Þetta er kannski ekki það skynsamlegasta. Prufið að setja 10 eininga bil á lárétta ásinn og skipta hverju í 5 smærri bil með mxtics. Finnið svo eitthvað skemmtilegt til að stilla lóðrétta ásinn á.