Hér að neðan eru kynntar nokkrar grunnskipanir skipanalínu skeljarinnar (e. command line).
Talað við tölvuna
Skelin er viðmót til að eiga í samskiptum við tölvuna. Það er hrátt að því leiti að ekki er boðið upp á neinar valstikur og hnappa. Þess í stað eru skrifaðar skipanir sem tölvan framkvæmir.
Einn sterkasti eiginleiki skeljarinnar er að í stað þess að benda og smella (sem er á ákveðinn hátt afturhvarf til forsögulegra tíma áður en mannfólkið hóf að nota tungumál) getum við notað þetta öfluga verkfæri, tungumálið, til að gefa tölvunni skipanir.
Opnaðu skelina (yfirleitt kölluð terminal
), sláðu inn eftirfarandi skipanir og svo á vendihnappinn (e. enter).
whoami
Þessi skipun gerir ekki margt annað en að prenta út notandanafnið þitt. Til að prenta út dagsetninguna slærðu inn:
date
Flestar skipanirnar eru sæmilega auðlæsilegar sem gerir þær auðveldari að muna.
Listi yfir skrár
Skoðum nú nokkrar skrár í skráarsafninu sem við erum í:
ls
Skipunin ls
(úr enska orðinu list
) gefur lista yfir allar sýnilegar skrár í skráarsafninu. Flestar skeljar sýna mismunandi tegundir skráa í mismunandi litum en annars vantar þó allar upplýsingar um skrárnar. Þær má fá með lengra formi listans:
ls -l
Breyta má röð skránna úr stafrófsröð í tímaröð með:
ls -lt
og öfuga tímaröð með:
ls -ltr
Það er þó ekki á margra færi að muna öll flöggin, en svo kallast þessir bókstafir sem bætt er aftan við bandstrikið. Því eru flestar skipanir með svokallaðar man skrár (stutt fyrir manual
) sem fletta má upp í með því að skrifa man <skipun>
eða, í tilviki listaskipunarinnar:
man ls
Þar má sjá að lista má upp innihald skráarsafna í listanum okkar með því að skrifa ls <skráarsafn>
tab til að klára
Fyrstu skref með skrársöfn
Búum okkur snöggvast til okkar eigið skráarsafn
mkdir nafniðáskráarsafninu
Veljið ykkar eigið nafn á skráarsafnið en athugið að skelin notar bil til að aðgreina hluta skipana. Því getið þið ekki notað bil í nafninu nema setja gæsalappir (einfaldar eða tvöfaldar) utan um nafnið.
mkdir 'nafnið á skráarsafninu
Til að sjá að þetta nýja skráarsafn sé í raun orðið til verðum við að lista upp innihaldið aftur. Þetta gerið þið líkt og í hlutanum að ofan.
Til að færa sig yfir í annað skráarsafn sem er í því sem við erum í er er notað:
cd nafniðáskráarsafninu
Til þess að komast aftur upp
er notast við skammstöfunina ..
:
cd ..
Unnið með skrár og skráarsöfn
Skrárnar okkar getum við endurnefnt og fært með skipuninni mv
(af enska move
). Eftirfarandi skipanir búa til skráarsanfið eitthvaðskráarsafn
, (tómu) skrána gamlanafn
, endurnefna skrána og færa hana til þannig að hún endar í þessu nýgerða skráarsafni með nafnið eitthvaðannaðnafn
.
Færðu þig í eitthvað leiksráarsafn sem þú hefur búið til og keyrðu eftirfarandi skipanir:
mkdir eitthvaðskráarsafn; touch gamlanafn mv gamlanafn eitthvaðnafn mv eitthvaðnafn eitthvaðskráarsafn/ mv eitthvaðskráarsafn/eitthvaðnafn ../eitthvaðnýttnafn mv ../eitthvaðnýttnafn eitthvaðskráarsafn/ennannaðnýttnafn
Á svipaðan hátt getum við afritað skrár með cp
(af enska copy
):
cp upprunalegaskrá afritaðaskrá
Ef afrita á skráarsöfn með öllu innihaldi sínu (sem við viljum yfirleitt gera) þarf að nota endurkvæmni (e. recursion):
cp -r upprunalegaskráarsafn afritaðaskráarsafn
Seinasta skráarmeðhöndlunarskipun þessarar yfirferðar er svo rm
(af enska remove
) sem glöggir engilsaxneskumælandi lesendur átta sig eflaust á því að eyðir skrám.
rm þegarþúýtiráenterverðurþessiskráekkilengurtil
Skelin gerir ráð fyrir að fólk viti hvað það er að gera svo það er engin ruslatunna
. Þegar þú eyðir skránni þá er hún þér horfin. Að eilífu. Nema þú eigir afrit. Þið hafið verið vöruð við.